Lög um neytendalán
Lög nr. 33/2013 um neytendalán fela aðallega í sér tvær meginreglur. Annars vegar aukna upplýsingaskyldu bankans áður en lán er veitt sem miðar að því að neytandi geti borið saman tilboð/lánakjör. Hins vegar eru settar reglur um framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats.
Til dæmis er lögð áhersla á að sýna viðskiptavinum hve hár hlutfallslegur kostnaður við lántöku er. Tilgangurinn með því að sýna hlutfall kostnaðar er að auðvelda viðskiptavinum að bera saman mismunandi lán. Hlutfallslegur kostnaður verðtryggða lána miðast við ársverðbólgu síðustu 12 mánuði.
Lánshæfismat og greiðslumat
Samkvæmt lögunum þarf að gera lánshæfismat áður en lán er veitt og að auki þarf að gera greiðslumat þegar lán er að fjárhæð 2.800.000 kr. eða meira fyrir einstakling eða 5.650.000 kr. eða meira fyrir hjón og sambúðarfólk.
Markmið laganna er að auka neytendavernd, tryggja samræmt lagaumhverfi innan Evrópska efnahagssvæðisins, stuðla að aukinni upplýsingagjöf um lánskjör og auðvelda neytendum samanburð á tilboðum um lán.
Auk þessa færa lögin neytendum ákveðin réttindi sem vert er að kynna sér vel. Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laganna og inn á vef Neytendastofu er að finna helstu upplýsingar um réttindi og skyldur sem í lögunum felast.
Sjá nánar um neytendalán inn á neytendastofu
Sjá bækling Neytendastofu um lögin
* Lög um neytendalán tóku gildi 1. nóvember 2013.Spurt og svarað um lög um neytendalán
Hvað er neytendalán og hvað þýða neytendalánalög?
Neytendalán er lánssamningur sem lánveitandi gerir við neytanda, þ.e. einstakling sem tekur lán ótengt atvinnustarfsemi. Lánssamningur getur t.d. verið veðlán, skuldabréf, bílasamningur, yfirdráttarheimild, raðgreiðslusamningur eða smálán.
Markmið laga um neytendalán, nr. 33/2013, er að auka neytendavernd, tryggja samræmt lagaumhverfi innan Evrópska efnahagssvæðisins, stuðla að aukinni upplýsingagjöf um lánskjör og auðvelda neytendum samanburð á tilboðum um lán.
Lögin leggja ríkar skyldur á lánveitendur um að upplýsa um allan kostnað og vexti við lán. Neytendum ber skylda til að veita upplýsingar um fjárhagsstöðu sína við mat á lánshæfi. Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laganna en þau byggja á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur.
Hvað þýðir „árleg hlutfallstala kostnaðar"?
Lánveitandi reiknar árlega hlutfallstölu kostnaðar sem er heildarlántökukostnaður, lýst sem árlegu hlutfalli af heildarfjárhæð sem neytandi greiðir. Árleg hlutfallstala kostnaðar nýtist neytendum til að bera saman mismunandi lánstilboð því hún tekur saman allan kostnað og vexti sem fylgja lánstilboði og setur fram í einni prósentutölu.
- Ef vextir og önnur gjöld lánssamnings eru breytileg skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.
- Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu skal útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar miðast við ársverðbólgu samkvæmt 12 mánaða breytingu vísitölu neysluverðs og þá forsendu að ársverðbólga verði óbreytt til loka lánstímans.
Árleg hlutfallstala kostnaðar má ekki nema meira en 50% að viðbættum stýrivöxtum.
Hvaða upplýsingar ber lánveitanda að veita?
Lánveitanda ber að veita neytanda víðtækar upplýsingar um lán áður en lánið er veitt. Neytandi á alltaf rétt á að fá eintak af lánssamningnum á pappír eða öðrum varanlegum miðli. Þessar upplýsingar eru m.a.:
Staðlað upplýsingablað
Lánveitendum ber skylda til að leggja fram upplýsingar á stöðluðu formi. Þeim upplýsingum er ætlað að auðvelda neytanda að bera saman ólík tilboð og taka upplýsta ákvörðun um lántökuna. Á staðlaða upplýsingablaðinu er að finna helstu upplýsingar um samninginn svo sem tegund láns, heildarfjárhæð þess, gildistíma samningsins, útlánsvexti og viðmiðunarvexti ef vextir eru breytilegir og árlega hlutfallstölu kostnaðar.
Þróun verðlags og vaxta
Lánveitandi á að veita upplýsingar um:
- Sögulega þróun verðlags og þróunar verðlags á höfuðstól og greiðslubyrði ef um verðtryggt lán er að ræða.
- Sögulega þróun breytilegra vaxta á neytendalánum og áhrif breytinga á vöxtum á greiðslubyrði ef lán er með breytilegum vöxtum.
- Sögulega gengisþróun viðkomandi gjaldmiðla og áhrif gengisþróunar á höfuðstól og greiðslubyrði ef lán er tengt erlendum gjaldmiðlum.
- Þróun verðlags og ráðstöfunartekna síðustu 10 ár
Neytendastofa birtir staðlað upplýsingablað með ofangreindum upplýsingum á vef sínum.
Á neytandi rétt á að falla frá samningi?
Neytandi á rétt á að hætta við og falla frá samningi í allt að 14 daga frá undirritun lánssamnings.
Falli neytandi frá samningi getur hann þurft að greiða áfallinn kostnað samkvæmt samningnum, til dæmis vexti og verðbætur.
Er heimilt að greiða lán fyrir gjalddaga og hefur það áhrif á lánið?
Neytandi hefur alltaf rétt á að greiða lánið upp, að hluta til eða í heild, fyrir þann tíma sem samið hefur verið um.
Lánveitandi getur krafist þess að neytandi greiði uppgreiðslugjald en það má aldrei vera hærra en 1% af fjárhæðinni sem greidd er upp.
Lánveitandi má ekki krefjast uppgreiðslugjalds ef:
- Um er að ræða yfirdráttarheimild
- Lánið ber breytilega vexti
- Ástæða uppgreiðslunnar er gjaldfelling lánsins af hálfu lánveitanda
- Uppgreiðslan er lægri en ein milljón á ársgrundvelli
- Greiðslan er gerð samkvæmt vátryggingasamningi sem er ætlað að tryggja greiðslu lánsins
Hafa þarf í huga að þetta á einungis við um lán sem tekin eru eftir 1. nóvember 2013 og geta aðrar reglur gilt um uppgreiðslu lána sem tekin voru fyrir þann tíma.
Hverjar eru skyldur neytanda?
Áður en lánssamningur er gerður er lánveitanda ávallt skylt að meta lánshæfi neytanda og gera lánshæfismat. Til viðbótar skal lánveitandi meta greiðslugetu með greiðslumati þegar sótt er um lán sem er 2,6 milljónir króna eða hærra en 5,2 milljónir króna eða hærra ef hjón eða sambýlisfólk sækir um lán.
Lánshæfismat
Lánshæfismati er ætlað að meta líkurnar á því hvort neytandi geti efnt lánssamninginn. Matið er byggt á viðskiptasögu lánveitanda og neytanda og á vanskilaupplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust.
Greiðslumat
Greiðslumat er útreikningur á greiðslugetu neytanda miðað við eignir, skuldir, gjöld og tekjur.
Í reglugerð um framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats er að finna nánari upplýsingar um hvernig vinna eigi þetta mat og á hvaða forsendum það skal byggja. Reglugerðin á að tryggja að lánshæfis- og greiðslumat sé gert með sambærilegum hætti hjá öllum lánveitendum.
Hvaða áhrif hefur þetta á lántökuferlið?
Lögin munu ekki hafa áhrif á lántökuferlið.
Þrátt fyrir að lántakandi fái meiri upplýsingar um lánið áður en það er veitt og við lántökuna þá eiga ný neytendalánalög ekki að hafa mikil áhrif á afgreiðslutíma smærri lána.
Þegar upphæð láns fer yfir 2,6 milljónir króna til einstaklinga eða yfir 5,2 milljónir króna til hjóna eða sambýlisfólks, þá þarf að framkvæma greiðslumat.
Greiðslumatið er ítarlegra en áður hefur tíðkast við sambærilega lánveitingu og getur haft áhrif á afgreiðslutíma lánsins.